Umhverfismál
Vaka vill stuðla að bættri umhverfisvitund Háskóla Íslands. Við viljum að Háskóli Íslands sé fyrirmynd og skari fram úr í þeim málum sem snúa að umhverfisvitund. Við viljum meðal annars bæta endurvinnslu innan háskólans og á Stúdentagörðum, fjölga lífrænum tunnum, bæta eftirfylgni með því að flokkað rusl nái á endastöð, minnka plastumbúðir í Hámu og auka notkun á náttúrulegri, fjölnota borðbúnaði.
Bætt umhverfisvitund Háskóla Íslands
Háskóli Íslands er einn stærsti vinnustaður landsins og Vaka gerir þá kröfu að sem slíkur sé hann fyrirmynd þegar kemur að umhverfisvitund. Vaka berst fyrir því að Háskóli Íslands sé umhverfisvænn og að leitað sé allra leiða til að hvetja starfsfólk og nemendur til að huga að umhverfinu.
Bætt endurvinnsla innan háskólans
Vaka vill að aukin áhersla sé lögð á flokkun úrgangs meðal nemenda og starfsfólks háskólans, t.d. með aukinni fræðslu og öðrum jákvæðum hvötum. Flokkunartunnur verða að vera staðsettar sem víðast og djúpgámar ættu að vera staðsettir við sem flesta stúdentagarða og byggingar háskólans.
Fjölgun á lífrænum tunnum í háskólanum
Of mikið af lífrænum úrgangi endar í svörtu tunnunum sökum þess að víða eru ekki lífrænar tunnur við flokkunareiningar skólans. Vaka vill bæta úr því og fjölga lífrænum tunnum í öllum byggingum háskólans og á stúdentagörðum.
Bætt eftirfylgni með því að flokkað rusl nái á endastöð
Flokkun innan veggja háskólans dugar skammt ef henni er ekki fylgt eftir í framhaldinu. Vaka vill að fylgst sé með því að flokkað rusl frá háskólanum skili sér rétt á endastöð.
Dregið sé úr plastumbúðum innan háskólans
Mikið af matvörum og drykkjum eru í plastumbúðum sem eru óumhverfisvænar. Vaka vill bæta úr þessu og draga úr plastumbúðum. Mikilvægt er að ýtt sé undir notkun á fjölnota búnaði innan Háskóla Íslands með jákvæðum hætti og þar með dregið úr notkun á einnota búnaði.
Aukin notkun á fjölnota borðbúnaði í háskólanum
Mikið magn plasthnífapara er notað í Háskóla Íslands. Vaka vill draga úr notkuninni með því að bæta aðgengi að fjölnota borðbúnaði og fjölga borðum til að leggja slíkt frá sér svo ekki þurfi að ganga langar vegalengdir til að skila því aftur. Við höfum lagt til við Félagsstofnun stúdenta að selja plasthnífapörin til að koma í veg fyrir aukna notkun á þeim.
Gjaldskylda á bílastæði háskólans
Vaka telur að til þess að gjaldskylda á bílastæðum virki verði að taka til greina hagsmuni allra stúdenta. Gjaldskyldan lendir verst á minnihlutahópum innan skólans eins og foreldrum, stúdentum af landsbyggðinni og stúdentum sem ekki hafa mikinn pening á milli handanna. Til þess að þetta virki verður strætó að uppfæra leiðakerfið sitt og hafa tíðari og fleiri leiðir til háskólans og á háskólasvæðið. Álíka ívilnandi ákvarðarnir verða að að taka mið af hagsmunum allra stúdenta.