top of page

Acerca de

Verkslagsreglur Vöku um viðbrögð við kynbundinni og kynferðislegri áreitni

Verklagsreglur um viðbrögð við kynbundinni og kynferðislegri áreitni og kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi innan Vöku, hagsmunafélag stúdenta Háskóla Íslands

1. gr.

Markmið

Kynbundin og kynferðisleg áreitni, kynbundið og kynferðislegt ofbeldi (hér eftir nefnt brot) er með öllu óheimilt af hálfu meðlima í Vöku, félagi lýðræðissinnaðra stúdenta, hér eftir nefnt Vaka, stjórnarmeðlima Vöku, fulltrúa Vöku í nefndum SHÍ, fulltrúa Vöku í Stúdentaráði Háskóla Íslands (aðal- og varamenn), og annarra sem starfa í umboði fylkingarinnar. Slíkt er hvorki liðið í samskiptum þessara meðlima innbyrðis né í samskiptum þeirra við einstaklinga sem teljast ekki til meðlima ráðsins enda eigi samskiptin sér stað í tengslum við starfsemi Vöku.

Markmið þessara verklagsreglna er að tryggja faglega meðferð mála sem eiga sér stað á vettvangi félagsins telji aðili samkvæmt 1. mgr. sig hafa orðið fyrir kynbundinni og kynferðislegri áreitni, kynbundnu eða kynferðislegu ofbeldi.

Jafnframt er það markmið reglnanna að kynna fyrir meðlimum og fulltrúum Vöku þau úrræði sem standa þeim til boða innan Háskóla Íslands og þá hegðun sem ekki er liðin innan Vöku.

ā€‹

2. gr.

Skilgreiningar og hugtök

Með hugtakinu kynbundin áreitni er átt við hegðun sem tengist kyni þess sem fyrir henni verður, er í óþökk viðkomandi og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi og skapa aðstæður sem eru ógnandi, fjandsamlegar, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi. Áreitnin getur verið líkamleg, orðbundin eða táknræn. Eitt tilvik getur talist kynbundin áreitni ef það er alvarlegt. [1]

Með hugtakinu kynferðisleg áreitni er átt við hvers kyns kynferðislega hegðun sem er í óþökk þess sem fyrir henni verður og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi, einkum þegar hegðunin leiðir til ógnandi, fjandsamlegra, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi aðstæðna. Hegðunin getur verið orðbundin, táknræn og/eða líkamleg. Eitt tilvik getur talist kynferðisleg áreitni ef það er alvarlegt.1

Með hugtakinu kynbundið ofbeldi er átt við ofbeldi á grundvelli kyns sem leiðir til eða gæti leitt til líkamlegs, kynferðislegs eða sálræns skaða eða þjáninga þess sem fyrir því verður, einnig hótun um slíkt, þvingun eða handahófskennd svipting frelsis, bæði í einkalífi og á opinberum vettvangi.1

Með hugtakinu kynferðislegt ofbeldi er átt við brot gegn kynfrelsi einstaklings sem lýst eru refsiverð í XXII. kafla almennra hegningarlaga.1

Með hugtakinu meðlimur er átt við alla þá sem taka þátt í starfi Vöku, þ.e. þá sem starfa í umboði fylkingarinnar eða sitja í embættum sem og þá sem taka þátt í starfinu með öðrum hætti.

Með hugtakinu fulltrúar í Stúdentaráði Háskóla Íslands er átt við þá einstaklinga sem eru lýðræðislega kjörnir til setu í Stúdentaráði af stúdentum Háskóla Íslands, sem fulltrúar Vöku.

Með hugtakinu varamenn í Stúdentaráði Háskóla Íslands er átt við þá einstaklinga sem hafa verið löglega samþykktir af Stúdentaráði Háskóla Íslands sem varamenn þeirra fulltrúa í Stúdentaráði Háskóla Íslands sem þar sitja sem fulltrúar Vöku.

Með hugtakinu fulltrúi Vöku í nefndum SHÍ  er átt við þá einstaklinga sem hafa verið samþykktir sem fulltrúar Vöku í nefndum Stúdentaráðs Háskóla Íslands.

Með hugtakinu aðilar máls er átt við þann/þá/þau sem talin/n/ð er hafa brotið af sér og þá/þann/þau sem talin/n/ð er hafa orðið fyrir broti.

Fagráð Háskóla Íslands um viðbrögð við kynbundinni og kynferðislegri áreitni og kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi er nefnd sem starfar á grundvelli verklagsreglna um viðbrögð við kynbundinni og kynferðislegri áreitni og öðru kynferðislegu ofbeldiinnan Háskóla Íslands. Í reglum þessum er vísað til þess undir heitinu fagráðið.

ā€‹

3. gr.

Fagráð Háskóla Íslands og meðferð tilkynninga.

Hver sem vill bera fram tilkynningu vegna brots sem viðkomandi telur sig hafa orðið fyrir af hálfu meðlims í Vöku eða tilkynna um brot sem viðkomandi telur sig hafa rökstuddan grun eða vitneskju um, skal snúa sér til trúnaðarmanna Vöku.

Þrír trúnaðarmenn félagsins skulu kosnir á aðalfundi félagsins ár hvert. Gæta skal að trúnaðarmenn séu ekki allir af sama kyni.

Hlutverk trúnaðarmanna Vöku er að taka til meðferðar og fjalla um möguleg brot eða aðra háttsemi sem tilkynnt hefur verið til trúnaðarmanna.

ā€‹

4 gr.

Meðferð og úrlausn mála

Við meðferð mála skal haft að leiðarljósi að þolandi eða tilkynnandi brots til trúnaðarmanna beri ekki skaða af þeirri tilkynningu á neinn hátt. Trúnaðarmenn skulu aðhafast í samráði við aðila.

Við meðferð mála skal haft að leiðarljósi að Vaka tekur skýra afstöðu gegn hvers kyns kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi, kynbundnu áreitni eða ofbeldi og að slík háttsemi líðst ekki innan félagsins.

Trúnaðarmenn skulu tryggja faglega meðferð máls. Hver sá sem tekur við tilkynningu um mögulegt brot skal vísa erindinu til fagráðsins til faglegrar meðferðar ef þörf þykir. Sé tilkynnt háttsemi af alvarlegum toga, svo að gæti varðað við XXII. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940, skulu trúnaðarmenn Vöku umsvifalaust vísa aðila máls til fagráðs Háskóla Íslands, þó í samráði við aðila.

Meðlimur í Vöku eða annar sá sem starfar í umboði ráðsins getur einnig snúið sér til starfsmanna réttindaskrifstofu SHÍ og verður málinu þá einnig vísað til fagráðs Háskóla Íslands. Þá er einnig hægt að leita milliliðalaust til fagráðsins.

Sé sitjandi trúnaðarmaður innan Vöku tengdur máli sem er til meðferðar innan trúnaðarmanna ber þeim aðila að víkja og enga aðkomu að málinu hafa.

ā€‹

5. gr.

Kynning

Fráfarandi formanni, eða eftir atvikum staðgengli formanns, er skylt að kynna verklagsreglur þessar og verklagsreglur Háskóla Íslands fyrir aðalfundi félagsins hverju sinni ásamt því að tilkynna um verkferla á skiptafundi stjórnar Vöku, einnig ef nýir meðlimir eru teknir inn í embættisstöður á kjörtímabilinu.

Vaka skal einnig kynna fagráðið fyrir meðlimum félagsins á samráðsvettvangi félagsins og á öðrum vettvangi.

 

6. gr.

Þagnarskylda

Mæli lög ekki á annan veg er þeim sem að málunum koma skylt að gæta þagmælsku um einstök mál.

Í alvarlegustu tilvikum eða þegar ástæða þykir til, ber trúnaðarmönnum að tilkynna félagsmönnum að mál sé til meðferðar og að því hafi verið vísað til fagráðsins. Heimilt er að víkja frá þessari skyldu sé það ósk þolanda.

 

7. gr.

Gildistaka

Verklagsreglur þessar, sem settar eru á grundvelli verklagsreglna um viðbrögð við kynbundinni og kynferðislegri og kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi innan Háskóla Íslands og 2. gr. reglna um Háskóla Íslands nr. 569/2009 og með hliðsjón af lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008 og reglugerð um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum nr. 1009/2015, öðlast gildi við staðfestingu samráðsvettvangs Vöku.

—————————————————————————————————————————————————————-

[1]Háskóli Íslands. Verklagsreglur um viðbrögð við kynbundinni og kynferðislegri áreitni og kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi innan Háskóla Íslands. Endurskoðuð útgáfa, samþykkt 7. september 2017. Sótt 5. desember 2017 af https://www.hi.is/haskolinn/verklagsreglur_um_vidbrogd_vid_kynbundinni_og_kynferdislegri_areitni_og_odru_kynferdislegu_ofbeldi
[2]Háskóli Íslands. (2017). Fagráð um viðbrögð við kynbundinni og kynferðislegri áreitni og kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi. Sótt 5. desember 2017 af https://www.hi.is/haskolinn/nefndir_haskolarads#fagrad.

bottom of page