top of page

Samgöngumál

Vaka vill bæta samgöngur til og frá Háskóla Íslands og stuðla að umhverfisvænni samgöngum. Við viljum setja upp rafmagnshleðslustöðvar við byggingar skólans, bætt kjör stúdenta hjá Strætó, tryggja að almenningssamgöngur stoppi hjá Háskólanum, fjölga yfirbyggðum hjólaskýlum, bæta og fjölga hjólastígum, lýsa upp bílastæðin við Háskólann og bæta viðhald bílastæða. Þá er einnig mikilvægt að þeir sem hafa ekki kost á að nýta sér aðrar samgöngur hafi aðgang að bílastæðum við skólann.

Umhverfisvænar samgöngur

Vaka vill að stúdentahreyfingin stuðli að því að nemendur og starfsfólk nýti sér umhverfisvænar samgöngur til og frá háskólanum í auknum mæli. Það viljum við gera með því að auka aðgengi að almenningssamgöngum og bæta aðstæður til hjólreiða og annarra umhverfisvænna kosta.

Rafmagnshleðslustöðvar við byggingar háskólans

Mikil vitundarvakning hefur verið í umhverfismálum síðustu ár og nú eru rafmagnshleðslustöðvar komnar eða á leið í bílastæði við ýmsar byggingar háskólans. Vaka fagnar því en enn má gott bæta.

Bætt kjör stúdenta hjá Strætó

Mikilvægt er að Strætó sé raunhæfur kostur fyrir stúdenta sem vilja nýta sér hagkvæmari samgöngur. Fjölga þarf leiðum og stoppum við Háskóla Íslands til þess að stúdentar geti nýtt sér Strætó til fulls. Vaka vill halda áfram þeirri vinnu sem umhverfis- og samgöngunefnd SHÍ hefur leitt, við að fá ódýrari kjör fyrir stúdenta hjá Strætó.

Fleiri yfirbyggð hjólaskýli

Vaka fagnar því að nú séu í bígerð yfirbyggð hjólaskýli við ákveðnar byggingar en við munum ekki stoppa fyrr en þau hafa risið við allar byggingar.

Fjölgun hjólastíga og viðhald

Vaka vill að hjólastígum á háskólasvæðinu sé fjölgað til að auðvelda ferðir á hjóli til og frá háskólanum. Þá viljum við þrýsta á að þeir séu ávallt ruddir og þeim sé haldið við svo að hægt sé að nota þá allan ársins hring. Þá þarf að bæta í hjólastígana í Vatnsmýrinni til að greiða aðgengi að öllum byggingunum þar.

Upplýst bílastæði við háskólann

Á vetrarmánuðum er svartamyrkur á flestum bílastæðum við byggingar háskólans. Vaka vill að settir séu upp fleiri ljósastaurar eða gæði þeirrar lýsingar sem er til staðar sé bætt á bílastæðum við háskólann til að auka aðgengi og öryggi nemenda og starfsfólks.

Viðhald bílastæða við háskólann

Bílastæðum á háskólasvæðinu er í mörgum tilfellum illa viðhaldið og í kjölfarið eru þau illa skipulögð og nýtt. Vaka vill að malarplönin við háskólann séu yfirfarin með reglulegu millibili og þau löguð. Aðstæður fyrir þá nemendur sem þurfa að koma á einkabíl í skólann eru ekki nægilega góðar.

Aðkoma gangandi vegfarenda að háskólasvæðinu

Bæta þarf umferðaröryggi gangandi vegfarenda í nágrenni við Háskóla Íslands. Gæta þarf þess að nærliggjandi götur bjóði ekki upp á ofsaakstur og að á þeim séu hraðahindranir af einhverjum toga sem þjóni þó tilgangi sínum án þess að valda skaða á ökutækjum. Það er alvarlegur skortur á gangbrautum við skólann en háskólasvæðið á að vera öruggt fyrir gangandi vegfarendur, þá sem nota hjálpartæki og hjólafólk.

Leiðarkerfi á milli háskólabygginga

Línu-leiðarkerfi milli háskólabygginga. Vaka telur að þetta myndi einfalda nýstúdentum að finna byggingar sem og bæta ásýnd háskólasvæðisins.

bottom of page