top of page

Menntasjóður

Á síðasta kjörtímabili urðu verulegar umbætur á lánasjóðskerfinu, Lánasjóði íslenskra námsmanna var skipt út fyrir Menntasjóð námsmanna. Þeirri breytingu fylgdi meðal annars 30% niðurfærsla á höfuðstól og verðbótum ef námi er lokið innan tiltekins tíma, stúdentum til bóta. Til stendur að endurskoða núverandi námslánakerfi á komandi kjörtímabili og því einstakt tækifæri fyrir okkur til að hafa áhrif, það er margt sem má bæta. Afnema þarf frítekjumark námslána en eins og stendur að þá eru réttindi til námslána skert um 45 krónur fyrir hverjar 100 kr. sem að lántaki þénar umfram 1.410.000 kr. á ári. Hækka þarf grunnframfærslu námslánanna þannig að þau miðast við dæmigert neysluviðmið félagsmálaráðuneytisins. Hvort tveggja er til þess fallið að bæta fjárhagsstöðu stúdenta. Skoða á að setja vaxtaþak á námslánin. Að lokum þarf að auka gagnsæi sjóðsins þannig að umsækjandi viti við hverju á að búast við umsókn um námslán.

Leiðrétting á grunnframfærslu stúdenta

Grunnframfærsla Menntasjóðs námsmanna er ekki í samræmi við framfærslukostnað í íslensku samfélagi. Einhleypir námsmenn í leigu- eða eiginhúsnæði fá um 185.000 kr. á mánuði fyrir skerðingar frá Menntasjóði, en til samanburðar eru grunnatvinnuleysisbætur 289.510 kr. miðað við 100% bótarétt og lágmarkslaun um 300.000 kr. Þetta er ólíðandi og Vaka krefst þess að námslánin séu hækkuð til muna.

Hærra frítekjumark

Sumarið 2019 hækkaði loksins frítekjumark námsmanna úr 930.000 kr. og upp í 1.330.000 kr. fyrir skatt. Vaka fagnar þeim merka áfanga en mikilvægt er að halda baráttunni áfram og gera betur. Frítekjumarkið setur þær skorður að ef að stúdentar vinna fyrir meira en 1.330.000 kr. fyrir skatt á einu ári skerðast námslánin um 45 kr. fyrir hverjar 100 kr. sem þénaðar eru umfram frítekjumarkið. Frítekjumarkið og lág grunnframfærsla halda stúdentum í fátækragildru þar sem lánin eru ekki nægilega há til framfærslu og stúdentar eru hindraðir í að vinna fyrir mismuninum. Vaka telur ákjósanlegt að binda frítekjumarkið við launavísitölu svo að stúdentar lendi ekki í því að sitja á hakanum í fleiri ár.

Lægri námsframvindukrafa

Vaka vill að námsframvindukrafa námslána sé lækkuð niður í 18 einingar eins og hún var áður. Mikilvægt er að stúdentar hafi svigrúm þegar það kemur að námsframvindu þar sem ófyrirsjáanlegar aðstæður geta haft áhrif á frammistöðu nemenda. Vaka vill tryggja að öll standi jöfnum fæti og eigi rétt á námslánum. Hægt yrði að útfæra þetta svo að námsframvindukrafan miðist við námshlutfall í prósentum en ekki einingafjölda.

Stúdentar með í ráðum lánasjóðsmála

Vaka telur mikilvægt að stúdentar hafi rödd í lánasjóðsmálum. Þannig getum við haft raunveruleg áhrif á okkar hagsmuni. Fulltrúar stúdentar hafa þegar fengið tvö sæti í samráðshópi Menntasjóðs námsmanna og Vaka vill að stúdentum sé tryggð áframhaldandi aðkoma í vinnu slíkra mála.

Betrumbæta styrkjakerfið

Vaka leggur til að námsmenn fái svigrúm sem nemur einu ári, það er tveimur önnum, til þess að klára námið án þess að réttindi þeirra séu skert þar sem aðstæður stúdenta eru misjafnar.

Breytt fyrirkomulagi meðlagsláns

Vaka telur mikla þörf vera á breyttu greiðslufyrirkomulagi meðlagslána. Stúdentar eiga að geta fengið greitt meðlagslán frá Menntasjóði Námsmanna yfir sumartímann en núverandi kerfi leyfir það ekki. Einnig væri ákjósanlegt að meðlagslánið væri greitt út mánaðarlega til innheimtustofnunar sveitarfélaga líkt og verður gert í nýja frumvarpinu með hefðbundin námslán.

bottom of page