Jafnréttismál
Tryggja þarf jafnt aðgengi allra nemenda að námi í Háskóla Íslands. Aðgengið á að vera óháð kyni, fötlun, sjúkdómum, uppruna, efnahag, kynhneigð og kynvitund. Ganga þarf úr skugga um að starfsmenn og nemendur skólans fái aukna fræðslu um málefni hinsegin fólks, sem og annarra jaðarhópa, til að sporna við fordómum og auka skilning. Vaka mun halda áfram að berjast fyrir jafnrétti nemenda við Háskóla Íslands, enda er jafnrétti til náms ein grundvallarforsendan fyrir bættu háskólasamfélagi.
Jafnrétti fyrir öll
Vaka berst fyrir jafnrétti allra stúdenta við Háskóla Íslands. Tryggja þarf jafnt aðgengi allra nemenda að námi. Aðgengið á að vera óháð kyni, kynþætti, aldri, fötlun, sjúkdómum, uppruna, efnahag, kynhneigð, kynvitund o.fl. Vaka mun halda áfram að berjast fyrir jafnrétti nemenda við Háskóla Íslands, enda er jafnrétti til náms ein af grundvallarforsendum fyrir bættu háskólasamfélagi sem leiðir til betra samfélags.
Jafnréttisáætlun HÍ
Vaka berst fyrir því að jafnréttisáætlun Háskóla Íslands sé fylgt eftir. Vaka mun veita stjórnsýslu háskólans aðhald og þrýsta á að áætluninni sé framfylgt.
#metoo
Vaka tekur skýra afstöðu gegn kynbundinni og kynferðislegri áreitni og ofbeldi. Vitundarvakning hefur orðið í samfélaginu í kjölfar #metoo-byltingarinnar. Vaka fagnar þeim úrræðum sem Háskóli Íslands hefur þegar komið á fót, þ.á.m. verklagsreglum, tilkynningahnapp Uglu og enn fremur tilurð þess fagráðs sem tekur til meðferðar mál er varða starfsfólk og nemendur háskólans. Vaka leggur áherslu á að úrræðin verði kynnt betur fyrir öllum nemendum og starfsfólki háskólans svo að skýrt sé hvert hægt er að leita þegar brot eru framin. Þá telur Vaka að hægt sé að gera enn betur í þessum málaflokki og krefst þess að Háskóli Íslands taki skýra afstöðu gegn hvers kyns mismunun og ofbeldi.
Tíðarvörur
Vaka berst fyrir aðgengi að tíðarvörum á öllum salernum háskólans. Vaka fordæmir að ekki séu aðgengilegar tíðarvörur inni á salernum skólans þegar náttúran kallar í tíma og ótíma og því krefst Vaka þess að tíðarvörur séu aðgengilegar í öllum byggingum háskólans, án endurgjalds. Vaka hvetur samt sem áður nemendur sem nota tíðarvörur til að velja umhverfisvænni kosti líkt og fjölnota tíðarvörur.
Landsbyggðin
Vaka fer fram á að nemendur geti stundað nám óháð búsetu og þ.a.l. verður að auka möguleika til fjarnáms. Einnig þarf að sjá til þess að ferðalán LÍN svari raunverulegum kostnaði við ástundun náms fjarri háskóla. Líta mætti til þess að taka upp jöfnunarstyrk (dreifbýlisstyrk) fyrir þá nemendur sem stunda nám fjarri lögheimili og fjölskyldu, líkt og þekkist í framhaldsskólum.
Vaka hvetur til samstarfs háskólans við samgöngufyrirtæki og gistiheimili á höfuðborgarsvæðinu sem gæti stuðlað að jafnrétti allra til náms óháð búsetu. Þetta kæmi til móts við fjarnema, þá helst í staðlotum. Þessar breytingar kæmu til með að efla jafnrétti til náms.
Sálfræðiþjónusta
Vaka berst fyrir aukinni sálfræðiþjónustu innan Háskóla Íslands. Vaka hefur hug á að efla þau úrræði sem þegar eru til staðar og háskólanemar geta nýtt sér að kostnaðarlausu. Þannig stuðlum við að bættri líðan háskólanema. Vaka telur nemendur ekki nægilega upplýsta um þessa þjónustu og vill vekja enn frekari athygli á henni. Tillaga forseta Vöku varðandi greiðara aðgengi að sálfræðiþjónustu háskólans, með þar til gerðum tímabókunarhnappi á Uglu, var einróma samþykkt á Stúdentaráðsfundi þann 25. september 2019.
Notkun prófnúmera
Vaka styður notkun prófnúmera þar sem þau eru mikilvæg til að tryggja jafnrétti nemenda og að þeir fái einkunnir eingöngu út frá þeim verkefnum eða prófum sem þeir leysa. Prófnúmer eru skylda í háskólanum en flestar deildir setja sér undanþágur frá notkun þeirra. Það er stefna Vöku að samræmi sé á milli deilda varðandi notkun prófnúmera.
Erlendir nemar
Vaka vill að aðgengi að námi fyrir nemendur af erlendum uppruna og nemendur sem hafa íslensku ekki að móðurmáli sé tryggt. Í því felst meðal annars að aðgengilegar upplýsingar um námið sé til staðar á mismunandi tungumálum og að möguleiki sé að þreyta próf og gera verkefni á ensku. Mikilvægt er að íslenskir og erlendir nemar búi við sömu tækifæri til náms.
Veturinn 2018-2019 samþykkti stjórn Menntavísindasviðs, sem Kolbrún Lára Vökuliði sat í, að nemendur sem hafi íslensku sem annað mál og muni taka skrifleg lokapróf á íslensku fái að hafa orðabók í prófinu og/eða lengri próftíma. Við hvetjum önnur svið skólans til að fylgja þessu fordæmi. (Sjá nánar Alþjóðastefnu Vöku)
Viðkvæmir hópar innan háskólans
Vaka mun berjast fyrir því að auðvelda fólki á flótta skrefið til þess að stunda nám við Háskóla Íslands. Oft þarf að skila vottorði þess efnis að hafa lokið skóla en oftar en ekki er um að ræða skóla sem eru á herteknu svæði og því getur reynst erfitt að nálgast það.