top of page

Fjölskyldumál

Þriðjungur íslenskra stúdenta eru foreldrar. Vaka leggur sérstaka áherslu á hagsmuni og baráttumál þeirra. Mikilvægt er að tekið sé tillit til ólíkra aðstæðna fólks og þannig tryggt að stúdentar sem eiga börn og/eða eiga von á barni/börnum sé ekki mismunað eða neitað um nám. Vaka vill að mæting þeirra sem stunda nám á meðgöngu sé sveigjanleg og einnig fyrsta árið eftir fæðingu barns. Einnig er mikilvægt að foreldrum sé sýnd tillitssemi varðandi veikindadaga barna. Vaka vill að leikskólar FS hafi sumarleyfi leikskólanna sveigjanlegra og Háskólinn taki tillit til starfsdaga leikskóla FS og vetrarfríum grunnskóla.

 

Vaka leggur mikla áherslu á að fæðingarstyrkur námsmanna verði hækkaður til muna enda á nám foreldra ekki að bitna á börnum þeirra og koma fjölskyldum í fátæktargildru. 

Hér má sjá tillögu Jónu Guðbjargar Ágústsdóttur sem samþykkt var af Stúdentaráði í desember 2022 um hækkun fæðingarstyrks námsmanna.

Fjölskylduvænar stundatöflur

Vaka vill að foreldrar geti skráð sig sem slíkir á Uglu. Við stundatöflugerð skal lágmarka fjölda tíma sem foreldrar þurfa að sækja eftir klukkan 16. Langtímamarkmiðið er að hætta kennslu eftir þann tíma. Þá ætti ekki að vera mætingarskylda í tíma sem eru eftir klukkan 16:00 og allir fyrirlestrar eftir þann tíma ættu að vera teknir upp og gerðir aðgengilegir yfir önnina, ætti það líka að gilda um próf og verklega tíma.

Mætingarskylda

Sýna þarf foreldrum í námi tillitssemi og sveigjanleika þegar við á. Vaka fer fram á að mætingarskylda hjá foreldrum verði afnumin nema í einstaka tilfellum. Kennarar gætu þá einungis áætlað 10% í mætingareinkunn eða notað mætingu til upphækkunar. Einnig krefst Vaka þess að sá valmöguleiki sem er til staðar, að hitta námsráðgjafa og fá sértæk úrræði, verði auglýstur.

Leikskólar Félagsstofnunar stúdenta

Þegar Vaka var í meirihluta í Stúdentaráði voru opnunartímar á leikskólum Félagsstofnunar stúdenta lengdir yfir prófatíð til að veita foreldrum meiri sveigjanleika við vistun barna sinna. Einnig var leikskólaplássum fjölgað svo biðtími eftir plássi hefur snarminnkað. Vegferðinni er samt ekki lokið og Vaka mun halda áfram að berjast fyrir bótum á leikskólum Félagsstofnunar stúdenta.

Fæðingarstyrkur og fæðingarorlof

Ef stúdentar eignast barn stendur þeim til boða að velja á milli fæðingarstyrks námsmanna eða fæðingarorlofs fyrir starf sitt. Störf námsmanna eru yfirleitt lágt launuð hlutastörf auk sumarstarfa. Vaka telur stúdenta, sem skila fullnægjandi námsframvindu og vinna samhliða námi, eiga að geta fengið bæði fæðingarstyrk og fæðingarorlof. 

Skiptiborð í allar byggingar

Vaka vill að skiptiborð séu til staðar fyrir foreldra í öllum byggingum háskólans. Mikilvægt er að þau séu ekki eingöngu staðsett á salernum sem merkt eru tilteknu kyni, heldur séu aðgengileg öllum. Einnig ætti að vera augljóst hvort skiptiborð séu á salernum eða ekki.

Barnastólar í allar byggingar

Vaka vill að barnastólar séu aðgengilegir í öllum byggingum og að auka skuli framboð þeirra til að auðvelda foreldrum í námi að borða með börnum sínum á matmálstímum. Ekki er nóg að hafa einungis einn barnastól á hverju svæði. Í tilefni af 85 ára afmæli Vöku í fyrra gaf félagið Háskóla Íslands nokkra barnastóla sem munu nýtast vel.

Leikhorn fyrir börn

Vaka vill búa til leikhorn fyrir börn við ákveðin námssvæði þar sem foreldrar geta mætt með börnin sín í skólann og lært á meðan börnin njóta sín í nálægð við foreldrana.

Gjafa- og skiptiaðstaða

Mikilvægt er að stúdentar sem eigi börn hafi góða aðstöðu í háskólanum. Vaka vill að gjafa- og skiptiherbergi séu aðgengileg í öllum byggingum háskólans þar sem foreldrar geta gefið og skipt á börnum sínum í rólegu og notalegu umhverfi.

Aukið framboð á fjölskylduíbúðum

Fjölskyldur sem búa á Stúdentagörðum eru margar í allt of litlu húsnæði vegna lítils framboðs af stærri fjölskylduíbúðum. Vaka krefst þess að Félagsstofnun stúdenta auki framboð af íbúðum fyrir fjölskyldur.

Fleiri orlofsannir fyrir foreldra

Þegar stúdent á von á barni og býr á Stúdentagörðum þá fær viðkomandi eina orlofsönn og þarf ekki að skila einingum fyrir þá önn sem hann velur en verður að skila 20 einingum til þess að halda húsnæðinu yfir árið. Ef orlof er valið að hausti þarf 20 einingar á vori til að halda íbúð. Vaka krefst þess að foreldrar í námi fái tvær orlofsannir eða að einingakrafan verði lækkuð svo að foreldrar geti notið þess að vera með börnum sínum eins og fólk á vinnumarkaði.

Fæðingarstyrkur námsmanna verði hækkaður

Vaka vill að fæðingarstyrkur námsmanna verði hækkaður til muna. Námsmenn eiga ekki að fá lægri greiðslur á fæðingarorlofstíma en þeir sem starfa á vinnumarkaði. Þar að auki telur Vaka ekki sanngjarnt að sem námsmaður á fæðingarstyrk hefur foreldri ekki kost á að dreifa fæðingarstyrksgreiðslum sínum á fleiri mánuði en nemur  hámarksfæðingarorlofstíma. Þetta skerðir því tíma barna með foreldrum sínum einungis vegna þess að þeir eru námsmenn. Vaka telur þetta geta átt við brot á Barnasáttmálanum þar sem kveðið er á um það að ekki megi mismuna barni úr frá stöðu þess. Nám foreldra á ekki að bitna á börnum þeirra og koma fjölskyldum fyrir í fátæktargildru.

bottom of page