top of page

Rafrænir Kennsluhættir við HÍ

Rafrænir kennsluhættir hafa verið í brennidepli á seinustu árum, en þá sérstaklega eftir tilkomu COVID-19 faraldursins. Vaka hefur barist fyrir aukinni rafrænni kennslu til lengri tíma og hefur HÍ sýnt fram á að allt sé mögulegt ef viljinn er fyrir hendi.

Vaka mun halda áfram að vera ötull talsmaður aukinnar rafrænnar kennslu, enda er tími til kominn að HÍ stígi stórt skref inn í framtíðina. Aukin rafræn kennsla stuðlar að jafnrétti og eykur aðgengi fjölbreyttra hópa fólks að námi

Upptaka fyrirlestra

Upptaka fyrirlestra stuðlar að jafnrétti til náms og eykur möguleika til að stunda nám við Háskóla Íslands óháð búsetu, fjölskylduhögum og heilsufari. Þá eiga nemendur sem missa af kennslustundum ekki að tapa mikilvægum námsgögnum og þekkingu sem er hvergi annars staðar aðgengileg. Í kjölfar COVID voru upptökur innleiddar hjá stórum hluta námskeiða og vill Vaka að allar kennslustundir sem gefa færi á því, séu teknar upp og þróun hvað þær varðar haldið áfram. 

Fjarnám og þjónusta við nemendur utan höfuðborgarsvæðisins 

Háskóli Íslands er sá háskóli sem býður upp á mesta úrval námsleiða og þjónustar stærsta hóp nemenda á Íslandi. Það er því með öllu óskiljanlegt að HÍ geri fólki utan höfuðborgarsvæðisins jafn erfitt fyrir og raun ber vitni að sækja sér nám við skólann. Vaka hefur ítrekað lýst yfir mikilli óánægju vegna skorts á fjarnámi og þjónustu við landsbyggðina. Vaka vill að fjarnám við HÍ verði aukið verulega og skólinn gerður aðgengilegri fyrir fólk á landsbyggðinni. Nemendur ættu ekki að þurfa að rífa allt sitt upp með rótum og flytja á höfuðborgarsvæðið til þess að stunda nám við stærstu menntastofnun landsins. 

Nútímavæðing háskólans

Í HÍ26, stefnu Háskóla Íslands frá 2021 til 2026 kemur eftirfarandi fram: „Háskólinn verði enn betri vinnustaður sem tryggi jafnrétti og fjölbreyttan bakgrunn nemenda og starfsfólks.“ Í stefnunni er tekið fram að nauðsynlegt sé að stutt verði sérstaklega við nemendur af erlendum uppruna og áhersla sé lögð á fjölbreytileika nemendahópsins. Vaka telur HÍ nauðsynlega þurfa að auka rafræna kennslu og uppfæra kennsluhætti sína almennt til þess að koma til móts við fjölbreyttann nemendahóp í æ hnattvæddara samfélagi. Fjarnám, upptökur fyrirlestra og þróun þess efnis voru hluti af HÍ21, en þrátt fyrir kjöraðstæður eftir þróun þessara þátta vegna COVID virtist HÍ ekki hafa áhuga á að stíga þetta skref til frambúðar. Vaka mun halda áfram að veita þessari stefnu skólans aðhald og þrýsta á að komið sé til móts við nemendur með aukinni rafrænni kennslu.

bottom of page