Atvinnumál
Vaka berst fyrir auknu samstarfi milli Háskóla Íslands og atvinnulífsins til þess að stuðla að auknu aðgengi nemenda skólans að atvinnu þegar námi lýkur. Flestir fara út á vinnumarkað að námi loknu og vilja starfa á því sviði þar sem menntun þeirra liggur. Til þess að auðvelda nemendum að finna sinn veg eftir útskrift er mikilvægt að þeir fái tækifæri til að kynnast þeim möguleikum sem eru í boði á meðan á námi stendur.
Aukið samstarf milli Háskóla Íslands og atvinnulífsins
Flest fara út á vinnumarkað að námi loknu og vilja starfa á því sviði þar sem menntun þeirra nýtist. Til þess að auðvelda nemendum að finna sinn veg eftir útskrift er mikilvægt að þeir fái tækifæri til að kynnast þeim möguleikum sem eru í boði á meðan á námi stendur. Vaka telur Háskóla Íslands ekki standa jafnfætis öðrum háskólum á Íslandi hvað varðar tengsl við atvinnulífið og vill að úr því sé bætt. Á starfsárinu 2019 til 2020 hóf Vaka vinnu að eflingu Atvinnudaga ásamt því að setja á laggirnar viðburð þar sem nemendur geta komist í kynni við aðila úr atvinnulífinu með auðveldum hætti. Sú vinna er enn í fullum gangi.
Tengslatorg
Að frumkvæði Vökuliða var atvinnumiðlun (www.tengslatorg.hi.is), sett á laggirnar fyrir nemendur sem er núna komin undir yfirumsjón náms- og starfsráðgjafar. Vaka hafði lengi barist fyrir slíkri miðlun þar sem nemendur geta á handhægan hátt fundið störf sem henta þeim hvort sem það er yfir sumarið eða samhliða námi. Vaka mun halda áfram að vekja athygli á síðunni og stuðla að auknu aðgengi nemenda að atvinnulífinu.
Efla nýsköpunar- og frumkvöðlastarf innan Háskóla Íslands
Háskóli Íslands hefur mikilvægu hlutverki að gegna innan samfélagsins sem uppspretta þekkingar, framþróunar og nýrra hugmynda. Vaka vill stuðla að eflingu nýsköpunar- og frumkvöðlastarfs innan Háskóla Íslands og veita stúdentum stökkpall til að framkvæma hugmyndir sínar. Vaka leggur til að endurskoða kennsluhætti til að ýta undir eflingu nýsköpunar og með því að bjóða upp á námskeið í félagslegri frumkvöðlafræði sem er ekki einungis fyrir meistaranema.
Vekja meiri athygli á starfsnámi
Starfsnám er ekki nægilega sýnilegt og aðgengilegt fyrir stúdenta innan skólans. Vaka hefur í gegnum árin barist fyrir þessu og viljum við enn meira framboð og samstarf við atvinnulífið.
Starfsnám fyrir einingar
Eitt helsta markmið Vöku er að brúa bilið milli náms og atvinnulífs. Vaka berst fyrir auknum tækifærum til valfrjáls starfsnáms, sem er ýmist launað með peningum eða einingum. Vaka er alfarið gegn því að boðið sé upp á starfsnám án þess að neitt komi í stað þess tíma sem stúdent ver í þágu atvinnurekanda. Langtímastefna félagsins er að öll starfsnám verði launuð. Vaka krefst þess að deildir séu duglegri að miðla starfstækifærum og það séu viðburðir á vegum deilda þar sem fyrirtæki sem vilja ráða nema innan deildanna komi og kynni störfin sem eru í boði.
Þverfaglegur valáfangi fyrir öll svið til að vinna saman
Vaka vill auka tengingu við atvinnulífið. Með auknu samstarfi milli námsbrauta væri hægt að sameina krafta fólks og skapa frábær tækifæri. Í Háskólanum í Reykjavík er áfangi sem við lítum til varðandi þessa tillögu. Við viljum að það verði til áfangi, skyldu- eða valáfangi, þar sem myndaðir væru hópar fólks frá mismunandi námsbrautum sem ættu að skipuleggja verkefni, áætlanir eða annað fyrir skóla, stofnanir eða fyrirtæki sem henta hverju sinni. Þar færi frumkvöðlastarf fram þar sem fólk gæti látið ljós sitt skína.