top of page

Aðgengismál

Vaka telur ótækt að háskólinn haldi starfsemi sinni áfram án þess að miklar lagfæringar séu gerðar hvað varðar aðgengi. Sem dæmi um lagfæringar mætti nefna aðgengi að byggingum háskólans, nemendur eiga að geta gengið að því vísu að geta setið tíma í byggingum skólans óháð eigin aðstæðum. Einnig má nefna þá staðreynd að nemendum við HÍ er ekki mætt þar sem þau eru stödd, enn er skyldumæting við lýði í mörgum námskeiðum og þó nemendur hafi í höndum sér undanþágur eru kennarar ekki endilega tilbúnir að koma til móts við þau, til dæmis með upptökum á kennslustundum.

Bætt aðgengi í byggingum háskólans

Vaka hefur barist af krafti fyrir bættu aðgengi að byggingum, salernum og öðrum rýmum háskólans undanfarin misseri og mun gera það áfram. Háskólinn á að vera fyrir öll og það er ólíðandi að aðgengi sé ekki til staðar í öllum byggingum. Á sumum stöðum, til dæmis í Stakkahlíð, eru dyr sem erfitt er fyrir fólk í hjólastól að opna. Á öðrum stöðum eru salerni, gangar eða lyftur of þröngar. Þá er fyrirkomulag í sumum kennslustofum þannig að ekki geta öll fengið sér sæti, til dæmis þegar borð og stólar eru föst saman sem eining. Vaka berst af krafti fyrir aðgengi fyrir öll. Einnig skal krefjast bætts aðgengis að þeim rýmum sem Félagsstofnun stúdenta sér um, svo sem í Stúdentakjallaranum og byggingum Stúdentagarðanna.

Nemendafélög og nefndir innan háskólans tryggi aðgengi á viðburðum

Félagslíf og samkomur eru stór hluti háskólanáms og mikilvægt er að tryggja að öll hafi aðgang að því. Í því felst meðal annars að huga að aðgengi í vísindaferðum, samkvæmum, árshátíðum, málfundum og ferðum út á land. Vaka sér fyrir sér að hægt væri að útbúa leiðarvísi að aðgengi og jafnræði í vísindaferðum fyrir öll nemendafélög til þess að aðstoða þau í framkvæmd á þessu.

Stofur og svæði séu merkt með blindraletri

Vaka berst fyrir því að fjölfarin svæði séu merkt með Braille, eða blindraletri. Vaka mun áfram berjast fyrir því að svæði, svo sem lyftur og stofur, verði merkt með Braille.

Bætt aðgengi blindra og sjónskertra að byggingum

Aðgengi blindra og sjónskertra að byggingum háskólans er verulega skert, sérstaklega á Háskólatorgi. Að koma upp leiðarvísum hefur lengi verið í umræðunni en það hefur ekki orðið að veruleika. Vaka krefst þess að aðgengi blindra og sjónskertra verði bætt.

Aðgengi heyrnarlausra og heyrnarskertra að námi

Vaka vill að aðgengi heyrnarlausra að námi sé tryggt. Í því felst meðal annars að gengið sé úr skugga um að táknmál sé í boði í kennslustundum, ýmist með manneskju sem fylgir viðkomandi í tíma eða með annarri þjónustu á vegum háskólans. Einnig finnst Vöku mikilvægt að úrræði séu til staðar fyrir fólk með skerta heyrn. Boðið er upp á það nú þegar að heyrnarskertir fái táknmálstúlk með sér í kennslustundir en þó er það takmörkunum háð og mikilvægt að bæta.

Sértæk námsúrræði

Nemendur ættu að hafa aðgang að þeim sértæku námsúrræðum sem völ er á yfir alla önnina, ekki bara í lokaprófum. Kennarar þurfa einnig að vera meðvitaðri um að standa við samninga vaðrandi úrræði og vekja þarf athygli á því að möguleiki sé á því að breyta samningunum hverja önn.

Aðgengi að glósuvinum

Innan háskólans er glósuvinakerfi sem nemendur með sértæk námsúrræði hafa aðgang að. Þar geta nemendur fengið glósur frá samnemanda sem síðan fær þóknun fyrir. Skortur er á glósuvinum og telur Vaka þörf á því að endurskoða kerfið. Glósur eru nú geymdar í gagnagrunni á milli ára en Vaka telur það nauðsynlegt að koma á fót jafningjafræðslu þar sem kerfið er illa kynnt fyrir nemendum og margir vita ekki hvernig báðir aðilar hafa hag af kerfinu.

Nemendur geti skráð sína stöðu með tilliti til aðgengis

Nú er hægt að skrá stöðu sína með tilliti til aðgengis hjá náms- og starfsráðgjöf HÍ. Vaka fagnar því en telur mikilvægt að þessu sé veitt athygli svo að stúdentar viti að þetta úrræði sé í boði.

Aðgengi að upptökum fyrirlestra alla önnina

Vaka krefst þess að rafrænt námsefni sé aðgengilegt út alla önnina, til að stuðla að yfirferð nemenda í prófaundirbúningi og koma til móts við þá nemendur sem geta ekki mætt í fyrirlestra sökum aðstæðna þeirra.

bottom of page