top of page
adalbygging-vor_1.jpg

Saga félagsins

Upphaf Vöku, tilgangur og hugmyndafræði

Vaka, félag lýðræðissinnaðra stúdenta, var stofnað á vormánuðum 1935 eða 4. febrúar. Stofnun þess átti sér stað á miklum umbrotaárum, nánar tiltekið fjórða áratug síðustu aldar, en árið 1933 var Félag Róttækra Háskólastúdenta stofnað, en stofendur þess aðhylltust sósíalísk og kommúnísk gildi. Árið 1934 var svo félag þjóðernissinnaðra Stúdenta stofnað, en það barðist fyrir þjóðernissinnuðum gildum.

        Þá voru góð ráð dýr fyrir hinn lýðræðissinnaða stúdent, en mörgum þóttu mannréttindi og lýðræði fótum troðin af áðurnefndum félögum, enda bæði félög róttæk. Svo fór að Vaka var stofnuð, og fór þar fremstur í flokki Jóhann Hafstein, þá laganemi en síðar forsætisráðherra, og var hann talsverður aflvaki félagsins fyrstu árin eftir stofnun.

 

Það verður ekki sagt um Vöku að hún taki ekki breytingum, en það urðu til að mynda þáttaskil í starfi Vöku um miðjan 9. áratug síðustu aldar. Þá hóf Vaka baráttu fyrir því að fá pólitíkina úr hagsmunabaráttu Stúdenta. En árunum á undan hafði Stúdentaráð til að mynda opinberlega stutt við Samtök Hernaðarandstæðinga sem og gefa út sérstakt tímarit til þess að berjast gegn Álverinu á Grundartanga. Þetta vildi Vaka burt.

        Það skal þó tekið fram að í því fólst ekki að Vaka eða Vökuliðar væru ósammála þessum pólitísku sjónarmiðum. Hins vegar töldu þeir að þetta ætti ekki beint erindi við stúdenta og hagsmunabaráttan yrði að vera þess eðlis að gæta hagsmuna stúdenta og stuðla að öflugu félagslífi innan Háskólans.

        Ljóst er að þessar hugmyndir Vöku hafa gert það að verkum að Stúdentaráð hafi hætt að senda frá sér yfirlýsingar, alls ótengdar stúdentum og þótti Vökuliðum og þykir enn það fagnaðarefni, enda ekki hlutverk ráðsins að koma með pólitískar yfirlýsingar.

        Þetta er einnig í fullkomnu samræmi við þá staðreynd að Vaka eru samtök óháðra. Það þýðir ekki að fólk megi ekki hafa skoðun á málefnum líðandi stundar eða pólitík, heldur öllu frekar að Vaka sé breiðfylking ólíkra skoðana, með það að sameiginlegu markmiði að stuðla að bættum hagsmunum stúdenta.

Vaka í gegnum tíðina

 

Eldri hagsmunamál

Vaka hefur ávalt notið mikils stuðnings meðal stúdenta og af mestum hluta starfstíma síns leitt starf Stúdentaráðs, en Vaka hefur átt formann Stúdentaráðs 47 sinnum á síðustu 94 árum.

        Á þessum árum var Lánasjóður Íslenskra Námsmanna stofnaður, þ.e. árið 1961, en þá var Vaka í meirihluta Stúdentaráðs. Eins var Félagsstofnun Stúdenta sett á fót með lögum árið 1968, að frumkvæði Stúdentaráðs og markaði það mikil þáttaskil fyrir stúdenta háskóla Íslands. Eitt af meginmarkmiðunum með stofnuninni var að færa frekari völd í hendur stúdenta og má segja að það hafi tekist, en FS rekur t.d. Stúdentagarða, Leikskóla, Bóksölu Stúdenta, Hámu og Stúdentakjallarann.

        Eins var Vaka drifkraftur að stofnun Nýja Garðs sem og Hjónagarðanna, sem að var á sínum tíma mikið framfararskref. Þegar að Nýi Garður var vígður árið 1971 höfðu Vökuliðar vonir uppi um að fá húsnæði þar, en sú von varð fljótt að engu. Svo fór að Vaka hélt því áfram að leigja út húsnæði hér og þar um bæinn til þess að halda úti skrifstofu. Það olli nokkrum vandkvæðum, þannig að Vökuliðar réðust í kaup á húsnæði, árið 1984, sem hefur síðan verið kallað Vökuheimilið.

 

Heimilið var staðsett að Hverfisgötu 50 og var það heimili félagsins allt til ársins 2003, þegar það var selt, sökum þess að hagsmunabarátta stúdenta hafði tekið nokkrum breytingum og ekki lengur talin þörf á húsnæðinu, en eflaust hafa margir haldið að síðasta ár þess yrði árið 1989. Það er vegna þess að þá, eftir sigurpartý Vöku, kviknaði í húsnæðinu, með þeim afleiðingum að innbúið skemmdist mikið. Hins vegar líkt og Vökuliðum einum er lagið var ráðist í endurbyggingu heimilisins, þannig að það var orðið eins og nýtt um mitt sumar árið 1989

  

Vaka á 21. öldinni

Vaka leiddi starf Stúdentaráðs á árunum 2002 til 2005 og náðust þá í gegn fjölmörg stefnumál samtakana. Í seinni tíð hefur Háskólinn stækkað ört og því verkefni Stúdentaráðs orðin fleiri og yfirgripsmeiri.                                         

        Vökuliðar hafa þó staðið vörð um hagsmuni nemenda líkt og aldrei fyrr, en það voru þeir sem að réðust í það verkefni að skanna inn þúsundir gamalla prófa, sem að gerði það að verkum að komið var á fót prófasafni skólans, sem nú má finna á heimasvæði nemenda, Uglunni. Eins er það Vökuliðum að þakka að opnunartími Þjóðarbókhlöðunar var lengdur talsvert.

        Vökuliðar eiga jafnframt heiðurinn að því að Stúdentakortin litu dagsins ljós á árunum 2006 til 2007, en það var þáverandi varaformaður Vöku og stúdentaráðsliði sem að forritaði kortin og hannaði kerfi í kringum þau.

        Eins má þakka Vöku fyrir það að einkunnaskil við Háskóla Íslands tóku stakkaskiptum, en Vaka hélt úti vefsíðunni prof.is, þar sem að nemendur gátu fylgst með því hvenær kennurum var skylt að skila af sér einkunnum og hvenær kennarar hefðu farið fram yfir tímann, sem og þáverandi formaður SHÍ og Vökuliði sendi Umboðsmanni Alþingis kvörtun, vegna tafa á einkunnaskilum sínum, en í kjölfarið var eftirlit bætt til muna.  

        Frá árinu 2009 hefur Vaka átt formann Stúdentaráðs og á þeim tíma hafa margir hagsmunasigrar litið dagsins ljós, s.s. byggingu nýrra stúdentagarða, en Oddagarðar opnuðu árið t.a.m. 2013.

        Eins vann Stúdentaráð dómsmál, sem það höfðaði gegn Lánasjóði Íslenskra Lánsmanna og íslenska ríkinu árið 2013, vegna þess að SHÍ taldi að breyting á útthlutunarreglum LÍN væri ólögmæt og var það gríðarlega stór sigur fyrir stúdenta.

Að lokum var Vaka, bæði í formi Vökuliða, sem og í hlutverki Stúdentaráðs drifkrafturinn að enduropnun Stúdentakjallarans. Kjallarinn eða Skjallarinn, eins og hann er kallaður manna á milli, opnaði á ný í desember árið 2012 eftir 5 ára hlé, en áður hafði hann verið í kjallaranum í Gamla Garði þar sem að hann var hann starfræktur í 32 ár.

 

Horft til framtíðar

Mikið vatn hefur runnið til sjávar, frá stofnun félagsins árið 1935. Fólk hefur komið og farið, áherslur tekið breytingum og samfélagið breyst, en háskólastúdentum hefur fjölgað úr 167 í 13.054 á starfstíma Vöku.

Hins vegar, þrátt fyrir miklar breytingar, hefur Vaka ávalt staðið vörð um hagsmuni stúdenta, en ekki sér fyrir endan á því ferðalagi sem að Jóhann Hafstein og félagar lögðu upp í fyrir 80 árum.

Heimildir:
 

Björn Patrick Swift. (2007. 31. Janúar). Stúdentakortin – Of mikil vinna? Deiglan.is. Sótt af http://www.deiglan.is/10873/
 

Félagstofnun Stúdenta. (e.d.) Oddagarðar. Sótt af http://www.studentagardar.is/ibudir/?cat=13
 

Kristján Hrafn Guðmundsson. (2003. e.d.) Vaka hefur sýnt að hún er trausins verð. Timarit.is Sótt af http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=4930627
 

Páll Björnson. (1985). Vaka 1935 – 1985: Ágrip af sögu Félags lýðræðissinnaðra stúdenta: Afmælisrit. Reykjavík.
 

Ristjórn Deiglunnar. (2003, 26.febrúar). Árangur Vöku áþreifanlegur og óumdeilanlegur. Deiglan.is. Sótt af https://www.deiglan.is/2070/.
 

Umboðsmaður Alþingis. (2007, 13. Júní). Mál nr. 4912/2007. Sótt af http://www.umbodsmaduralthingis.is/ViewCase.aspx?Key=1202&skoa=mal
 

(Höfundur óþekktur). (2013, 30. ágúst) Stúdentaráð hafði betur gegn LÍN. mbl.is. Sótt af http://www.mbl.is/frettir/innlent/2013/08/30/studentarad_hafdi_betur_gegn_lin/
 

(Höfundur óþekktur). (2007, Febrúar). Stúdentaráð: Kosningar nálgast. Timarit.is. Sótt af http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=316738&pageId=4955681&lag=is&q=prof.is

bottom of page