Hinsegin málefni
Samfélag okkar á Íslandi er fjölbreytt og er það vilji Vöku að umhverfi og starfshættir Háskóla Íslands endurspegli það. Þær kröfur sem lagðar eru fram í hinseginstefnu þessari eru margar en sameiginlegt markmið þeirra er að gera háskólann að öruggari, aðgengilegri og betri stað fyrir alla nemendur, óháð kynhneigð, kynvitund, kyntjáningu o.s.frv.
Áhersluatriði stefnunnar snúa m.a. að frjálsri skráningu kyns á Uglu, hinsegin fræðslu fyrir kennara, áherslu á orðalag sem gerir ráð fyrir öllum einstaklingum og aukið úrval námsleiða í hinsegin fræðum.
Háskólinn á að vera öruggt og opið starfsumhverfi sem tekur öllum jöfnum höndum, jafnt nemendum sem starfsfólki – er það vilji Vöku að þetta sé tryggt sem allra fyrst!
Uppræting gagnkynhneigðar- og kynjatvíhyggju
Vaka vill uppræta skaðlega kynjatvíhyggju innan Háskóla Íslands og stuðla að kerfisbundnum og stofnanabundnum breytingum í átt að aukinni meðvitund um fjölbreytileika. Í því felst meðal annars að gert sé ráð fyrir hinsegin fólki í kennslustundum, námsefni, verkefnum, í rannsóknum innan háskólans og þeim námskeiðum sem boðið er upp á.
Frjáls skráning kyns
Vaka krefst þess að hugað sé að trans og kynsegin nemendum við skráningu á Uglu. Vaka vill að stúdentar geti skráð það kyn sem samræmist þeirra kynvitund, óháð því hvernig þau eru skráð í Þjóðskrá. Núna á næstu misserum á að innleiða kerfi í samræmi við lög um kynrænt sjálfræði nr. 80/2019 og mun Vaka berjast fyrir því innan háskólans að tekið verið upp skráningarkerfi í samræmi við lögin. Kynskráning skal bjóða upp á fleiri möguleika en aðeins karlkyn eða kvenkyn. Vaka er opin fyrir því að kanna fleiri möguleika á ólíkum kynskráningum í samráði við Q-félagið og aðra hagsmunaaðila.
Kynlaus salerni
Vaka vill að í það minnsta eitt klósett í hverri byggingu háskólans sé ómerkt tilteknu kyni. Vaka telur mikilvægt að öllum sé tryggt öruggt og aðgengilegt rými innan háskólans, óháð kyni eða kynvitund.
Hinsegin fræðsla
Vaka berst fyrir því að kennarar og annað starfsfólk skólans fái fræðslu um málefni hinsegin fólks. Mikilvægt er að háskólinn í heild sinni sé meðvitaður um þá þróun sem á sér stað í samfélaginu. Þá skulu áherslur í kennslu og stefnum skólans vera í samræmi við þróun samfélagsins. Vaka hefur hug á, í samstarfi við stjórnendur HÍ, að kanna möguleika á því að koma á fót námskeiði sem ætlað er málefnum hinsegin fólks t.d. í gegnum Endurmennt fyrir kennara. Vaka vill koma því í farveg að hvetja umsjónarfólk námskeiða til að innleiða hinseginfræði og vekja þannig áhuga og vitund nemenda á mikilvægi þeirra og fjölbreyttra notagilda fræðanna.
Orðræða
Vaka vekur athygli á mikilvægi þess að kennarar og aðrir starfsmenn háskólans tileinki sér orðræðu sem gerir ráð fyrir fjölbreytni kynja og hinseginleika almennt. Háskólinn skal vera fyrir öll, bæði í málfari og gjörðum. Notkun tungumálsins getur skipt miklu máli þegar kemur að því að tryggt sé tillit til allra í orði og riti. Orðræða sem ekki gerir ráð fyrir fjölbreytileika mannkynsins felur í sér mismunun og heldur uppi úreltum staðalímyndum um eðli samfélagsins og hinsegin einstaklinga.
Hinsegin fræði í kennslu
Vaka krefst þess að hinsegin fræði verði gerð að sérstakri námsgrein innan Háskóla Íslands. Vaka telur brýnt að hinsegin fræði standi öllum nemendum til boða óháð námssviði.
Sýnileiki Q-félagsins
Vaka ætlar að stuðla að sýnileika Q-félagsins. Með því að stuðla að sýnileika félagsins og ýta þar með undir hinsegin fræðslu. Háskólinn verður að standa með félögum eins og Q-félaginu til þess að ýta undir fræðslu og aðgerðir í þágu þessa málaflokks.